Jötunn Vélar kaupa Jón Bónda.

Nýverið var gengið frá samningi um kaup Jötunn Véla á rekstri Jóns Bónda.

Markmið Jötunn Véla með kaupunum er að auka enn frekar vöruúrval í verslun og netverslun og þannig geta þjónað viðskiptavinum sínum um allt land enn betur á komandi misserum.

Jón Bóndi sérhæfir sig í innflutningi og sölu á ýmiskonar rekstrarvörum fyrir bændur og aðra dýraeigendur en meðal þekktra vörumerkja sem Jón bóndi selur má nefna: 

Lister klippur og rúningsvörur.
Durinn rimlagólf fyrir sauðfé.
SMB brynningartæki og tengdar vörur
Wagg gæludýrafóður.
Sealskinz vatnsheldan hlífðarfatnað.
Auk þess hefur Jón bóndi selt fjölbreytt úrval annarra vara frá minna þekktum framleiðendum í Evrópu og Asíu.

Jón Bóndi sem áður hét Ísbú búrekstrarvörur var stofnað af þeim Ásmundi Einari Daðasyni og Daða Einarssyni á Lambeyrum og hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. Fyrirtækið var til að byrja með staðsett á Lambeyrum en síðustu árin hefur starfstöð þess verið að Réttarhálsi 2 í Reykjavík. Síðar áttu Gunnar Biering og Sunna Helgadóttir fyrirtækið og selja þau nú Jötunn vélum reksturinn.


Lager Jóns Bónda hefur nú verið fluttur í húsnæði Jötunn Véla á Selfossi og er orðin hluti af viðamiklu rekstrarvöruúrvali Jötunn Véla en heimasíða Jóns Bónda (www.jonbondi.is) mun áfram verða opin.

Gunnar Bienring sem átti 50% í Jóni bónda undanfarin ár hefur jafnframt hafið störf hjá Jötunn Vélum og mun sem fyrr leitast við að þjóna nýjum og gömlum viðskiptavinum sem allra best.

Jötunn Vélar er alhliða sölu og þjónustufyrirtæki við landbúnað og er staðsett að Austurvegi 69 á Selfossi. Starfsmenn Jötunn Véla eru 25.